Ísak og María meistarar með sínum besta árangri

María Rún Gunnlaugsdóttir er Íslandsmeistari í fimmtarþraut.
María Rún Gunnlaugsdóttir er Íslandsmeistari í fimmtarþraut. mbl.is/Árni Sæberg

Ísak Óli Traustason úr Ungmennasambandi Skagafjarðar varð Íslandsmeistari í sjöþraut um helgina og María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut en Íslandsmótið í fjölþrautum fór fram í Laugardalshöllinni.

Ísak náði sínum besta árangri, fékk 5.355 stig, og vann sex greinar af sjö. Besti árangur samkvæmt stigatöflu var í 60 metra grindahlaupi þar sem hann fékk 891 stig fyrir 8,37 sekúndur.

Þetta er sjötti besti árangur Íslendings í sjöþraut en Íslandsmetið á Jón Arnar Magnússon, sem einnig keppti fyrir UMSS, en hann fékk 6.293 stig árið 1999.

Ísak Óli Traustason er Íslandsmeistari í sjöþraut.
Ísak Óli Traustason er Íslandsmeistari í sjöþraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benjamín Jóhann Johnsen úr ÍR varð annar með 4.174 stig og Árni Björn Höskuldsson úr FH varð þriðji með 3.510 stig en hvorugur þeirra náði að ljúka öllum greinum.

Í fimmtarþrautinni hafði María Rún betur í einvígi við Þórdísi Evu Steinsdóttur samherja sinn úr FH en María fékk 4.169 stig og Þórdís 3.715 stig. María náði bestum árangri í 60 metra grindahlaupi þar sem hún fékk 969 stig fyrir 8,72 sekúndur.

María náði einnig sínum besta árangri en hún var fyrir mótið næstbest í greininni frá upphafi. Íslandsmet Helgu Margrétar Þorsteinsdóttur frá árinu 2012 er 4.298 stig.

mbl.is