Vann átjánda risatitilinn sárkvalinn

Novak Djokovic vann á sínu átjánda risamóti á ferlinum um …
Novak Djokovic vann á sínu átjánda risamóti á ferlinum um síðustu helgi. AFP

Serbinn Novak Djokovic var að glíma við meiðsli á Opna ástralska meistaramótinu í tennis sem lauk um helgina.

Þetta staðfesti hann í samtali við fjölmiðla í Ástralíu en Djokovic tognaði í kvið í 3. umferð mótsins gegn Taylor Fritz.

Djokovic vann nokkuð öruggan 3:0-sigur gegn Rússanum Daniil Medved í úrslitum á mótinu í ár en þetta var átjándi risatitill Serbans á ferlinum.

„Ég var mjög áhyggjufullur eftir að ég meiddist snemma í mótinu,“ sagði Djokovic.

Ég vissi ekki hvort ég myndi geta spilað leikinn í fjórðu umferðinni fyrr en ég mætti út á völlinn til þess að hita upp.

Ég fann fyrir sársauka en ég spilaði í gegnum hann. Ég var sárkvalinn á köflum en læknateymið mitt vann kraftaverk.

Með hjálp Guðs tókst mér að vinna á mótinu og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur,“ bætti Djokovic við en þetta var þriðja árið í röð sem hann fagnar sigri á Opna ástralska meistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert