Fyrstu leikir með áhorfendum annað kvöld?

Áhorfendabekkirnir hafa verið auðir í vetur en annað kvöld verður …
Áhorfendabekkirnir hafa verið auðir í vetur en annað kvöld verður hægt að mæta á fjóra körfuboltaleiki í úrvalsdeild kvenna. mbl.is/Íris

Áhugafólk um körfuknattleik og handknattleik gæti byrjað að mæta á ný á áhorfendapallana annað kvöld en samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra geta allt að 200 manns komið saman á íþróttaviðburðum frá og með morgundeginum.

Annað kvöld  verður leikin heil umferð í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildinni, sem og í 1. deild kvenna í handknattleik, Grill 66-deildinni, og þar geta komið saman 50 til 200 manns, eftir aðstæðum á hverjum keppnisstað.

Til þess að 200 áhorfendur megi vera á íþróttaviðburði þurfa þeir að geta setið í sætum, upplýsingar þurfa að vera til staðar um hvern og einn, minnst einn metri þarf að vera á milli óskyldra aðila og skylt er að vera með andlitsgrímur. Þar sem ekki er hægt að framfylgja þessu gilda almennar fjöldatakmarkanir, sem hafa verið hækkaðar í 50 manns.

Þessir átta leikir fara fram annað kvöld og eru fyrstu íþróttaviðburðirnir eftir að reglugerðin tekur gildi:

KÖRFUKNATTLEIKUR

Úrvalsdeild kvenna, Dominos-deildin:
Dalhús: Fjölnir – Keflavík 18.15
Smárinn: Breiðablik – KR 19.15
Stykkishólmur: Snæfell – Skallagrímur 19.15
Origo-höllin: Valur – Haukar 20.15

HANDKNATTLEIKUR

1. deild kvenna, Grill 66-deildin:
Varmá: Afturelding – Grótta 19.30
Kórinn: HK U – Fjölnir/Fylkir 19.30
Hleðsluhöllin: Selfoss – Fram U 19.30
Austurberg: ÍR – Víkingur 20.15

mbl.is