Mikil ábyrgð sem liggur hjá félögunum og stuðningsmönnum

Áhorfendabann hefur verið hér á landi síðan í október þegar …
Áhorfendabann hefur verið hér á landi síðan í október þegar þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins skall á. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er það sem við vorum að vonast eftir og höfum verið að vinna að undanfarnar vikur,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, í samtali við mbl.is í dag.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra staðfesti í samtali við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í dag að heimilt verði fyrir allt að 200 manns að koma saman á ákveðnum stöðum, þar á meðal íþróttaviðburðum.

Þetta þýðir að áhorfendur mega mæta aftur á kappleiki en áhorfendabann hefur verið við lýði hér á landi frá því í október þegar þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins skall á.

„Það er frábært að það sé búið að gefa leyfi fyrir 200 áhorfendum en þessu fylgir líka mjög mikil ábyrgð, bæði hjá stuðningsmönnunum og auðvitað félögunum. Þetta eru strangar reglur sem við þurfum að sitja undir sem er eðlilegt en við eigum enn þá eftir að fá sjálfa reglugerðina í hendurnar og núna bíðum við bara í ofvæni eftir henni,“ bætti Hannes við.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í körfuknattleik, ásamt Hannesi S. …
Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í körfuknattleik, ásamt Hannesi S. Jónssyni, formanni KKÍ. mbl.is/Hari

Mikilvægt að fara eftir settum reglum

Eftir að KKÍ hefur fengið reglugerðina í hendurnar fer af stað ákveðið ferli innan sambandsins þar sem það skilar inn sínum tillögum að útfærslum á nýjum reglum og þarf heilbrigðisráðuneytið að samþykkja tillögur KKÍ áður en áhorfendur geta mætt á kappleiki að nýju.

„Þetta mun ekki gerast í dag og líklega ekki á morgun heldur því við þurfum að skila inn okkar tillögum til heilbrigðisráðuneytisins um það hvernig við ætlum okkur að útfæra þetta sem bíður svo samþykkis innan ráðuneytisins.

Við höfum hingað til skilað inn sameiginlegum tillögum með HSÍ, handknattleikssambandinu, þannig að þetta er virkilega ánægjulegt og áhorfendur og stuðningsmenn munu snúa aftur í íþróttahúsin á næstu dögum.

Við viljum ekki þurfa að fara til baka heldur viljum við geta tekið skref fram á við og það er því sérstaklega mikilvægt fyrir stuðningsmennina að fara eftir þeim reglum sem gilda. Eins er mikil vinna fram undan fyrir sjálfsboðaliðana að láta þetta ganga upp og það þurfa allir að leggjast á eitt núna,“ bætti Hannes við í samtali við mbl.is.

Vonir standa til þess að stuðningsmenn geti snúið aftur í …
Vonir standa til þess að stuðningsmenn geti snúið aftur í íþróttahúsin í þessari viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfitt að fara í djúpar pælingar

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, var ánægður með fréttir dagsins þegar mbl.is heyrði í honum hljóðið.

„Við þurfum að sjá hvaða skilyrði við þurfum að uppfylla svo þetta gangi eftir en við höfum verið í sambandi við miðasölufyrirtækin okkar um hvernig við getum leyst þetta á sem einfaldastan hátt ef það þarf að skrá niður alla sem koma inn í húsin,“ sagði Róbert í samtali við mbl.is.

„Við eigum módelið tilbúið frá því síðasta haust um það hvernig við getum leyst þetta með hverju íþróttahúsi fyrir sig. Um leið og við fáum reglugerðina í hendurnar munum við fara beint í það að teikna það upp hvernig við getum útfært þetta allt saman.

Það er alveg ljóst að sum hús eiga mjög auðvelt með þetta á meðan það þarf að skoða önnur hús sérstaklega.“

Framkvæmdastjórinn er spenntur fyrir því að fá áhorfendur á nýjan leik í húsin.

„Það er erfitt að fara í djúpar pælingar með þetta þegar við erum ekki búin að fá reglugerðina sjálfa í hendurnar en það verður virkilega gaman að fá áhorfendur aftur í húsin,“ bætti Róbert við.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, lengst til vinstri.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, lengst til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is