Miklar kempur tilnefndar til Laureus-verðlaunanna

Rafael Nadal hlaut verðlaunin árið 2011 eða fyrir áratug síðan …
Rafael Nadal hlaut verðlaunin árið 2011 eða fyrir áratug síðan og á aftur möguleika nú. AFP

Laureus verðlaunin verða afhent í maí en í dag var kynnt hvaða íþróttafólk er tilnefnt sem fólk ársins 2020. 

Íþróttafréttamenn víða úr heiminum taka þátt í kjörinu en verðlaunin eru einhver þau virtustu í íþróttaheiminum og verða nú afhent í tuttugasta og annað sinn.

Ljóst er að nýtt nafn fær nafnbótina hjá konunum því engin þeirra sem tilnefndar eru hefur unnið. Þess má geta að síðustu fimm árin hafa annað hvort Simone Biles eða Serena Williams verið valdar. 

Miklar kempur eru tilefndar sem Íþróttamaður ársins og Íþróttakona ársins eins og sjá má: 

Íþróttamaður ársins:

Joshua Cheptegei frá Úganda. Setti heimsmet í bæði 5.000 og 10.000 metra hlaupi. 

Armand Duplantis frá Svíþjóð. Setti heimsmet í stangarstökki bæði utanhúss og innanhúss. 

Lewis Hamilton frá Bretlandi. Heimsmeistari í Formúlu1 kappakstrinum í sjöunda sinn sem er metjöfnun.

LeBron James frá Bandaríkjunum. Varð NBA-meistari í körfuknattleik í fjórða sinn og var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í fjórða sinn. 

Robert Lewandowski frá Póllandi. Skoraði 55 mörk þegar Bayern München varð Evrópumeistari og þýskur meistari í knattspyrnu. 

Rafael Nadal frá Spáni. Sigraði í einliðaleik á risamóti í tennis í tuttugasta sinn þegar hann sigraði á Opna franska meistaramótinu og jafnaði við Roger Federer. 

Íþróttakona ársins: 

Anna van der Breggen frá Hollandi. Sigraði bæði í tímatöku og götukeppninni á heimsmeistaramótinu í hjólreiðum. 

Federica Brignone frá Ítalíu. Varð fyrsta ítalska konan sem sigrar í stigakeppni heimsbikarsins í alpagreinum á skíðum.Sigraði einnig í risasvigi og tvíkeppni heimsbikarsins. 

Brigid Kosgei frá Keníu. Sigraði með meira en þriggja mínútna mun í London maraþoninu. 

Naomi Osaka frá Japan. Sigraði í einliðaleik á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis og hefur þá sigrað þrívegis í einliðaleik á risamótum þótt hún sé einungis 22 ára. 

Wendie Renard frá Frakklandi. Fyrirliði Lyon sem sigraði fimmta árið í röð í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. 

Breanna Stewart frá Bandaríkjunum. Varð WNBA-meistari í körfuknattleik með Seattle Storm og var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. 

Simone Biles hefur þrívegis fengið verðlaunin á síðustu fjórum árum …
Simone Biles hefur þrívegis fengið verðlaunin á síðustu fjórum árum en er ekki tilnefnd að þessu sinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert