Fjölnismenn fyrstir að vinna SA

Það var hart barist á Akureyri í kvöld.
Það var hart barist á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fjölnir varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna SA á leiktíðinni í Hertz-deild karla í íshokkí. Lokatölur í Skautahöllinni á Akureyri urðu 4:2. 

Mikill hiti var í leiknum og fékk lið SA í tvígang tíu mínútna brottvísanir fyrir ljót brot og þá fékk Fjölnismaðurinn Andri Sverrisson 25 mínútna brottvísun fyrir að nota efsta hluta kylfunnar til að veita leikmanni SA högg. 

Staðan eftir fyrstu lotu var markalaus en önnur lota var fjörug. Jóhann Már Leifsson kom SA yfir á 22. mínútu en tveimur mínútum síðar jafnaði Aron Knútsson. Einar Guðnason kom Fjölni yfir á 34. mínútu og Thomas Vidal tvöfaldaði forskot Fjölnismanna á 35. mínútu. 

Einar Guðnason kom Fjölni í 4:1 með sínu öðru marki á 43. mínútu, áður en Jóhann Már minnkaði muninn í 4:2 með sínu öðru marki og þar við sat. 

Þrátt fyrir úrslitin er SA enn í toppsætinu með 18 stig. Fjölnir er í öðru sæti með níu og SR rekur lestina án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert