Yfirgefa HM vegna kórónuveirunnar

Francesco De Fabiani á leið í mark á HM í …
Francesco De Fabiani á leið í mark á HM í Oberstdorf. AFP

Ítalska landsliðið í norrænum greinum skíðaíþrótta hefur ákveðið að halda heimleiðis frá heimsmeistaramótinu í Oberstdorf í Þýskalandi eftir að kórónuveirusmit tóku að breiðast út í hópnum.

Ítalska skíðasambandið skýrði frá þessu með fréttatilkynningu í dag. „Því miður hafa nokkrir í starfsliði okkar greinst með kórónuveiruna. Þess vegna höfum við ákveðið að þeir sem eru á mótinu snúi heim til Ítalíu,“ segir í tilkynningunni.

Ítalski skíðagöngumaðurinn Francesco De Fabiani staðfesti þetta enn fremur við norska miðilinn VG. „Þetta er því miður rétt. Fimm kílómetra gangan var mitt stóra tækifæri svo ég er verulega svekktur,“ sagði hann við VG.

Það eru ekki bara Ítalir sem hafa lent í vandræðum í Oberstdorf. Í morgun staðfestu Norðmenn að skíðastökkvarinn Halvor Egner Granerud væri smitaður af kórónuveirunni og væri á heimleið frá mótinu.

mbl.is