„Veit hvað ég er að fara út í“

Hlynur Andrésson á fullri ferð.
Hlynur Andrésson á fullri ferð. Ljósmynd/Bjorn Parée

Hlynur Andrésson, langhlaupari frá Vestmannaeyjum, verður að bíða aðra viku áður en hann reynir við Ólympíulágmarkið í maraþoni í fyrstu atrennu.

Hlynur ætlaði að reyna við lágmarkið í Bern í Sviss í dag en hlaupinu var frestað vegna veðurs. „Það voru allir að fara að reyna við Ólympíulágmarkið í þessu hlaupi og þá er ekki æskilegt að hlaupa við þessar aðstæður, í snjó og roki. Það er eiginlega bara ekki hægt,“ sagði Hlynur við mbl.is sem sló á þráðinn til hans í dag. Þess í stað hefur Hlynur skráð sig til leiks í Dresden í Þýskalandi á sunnudaginn eftir viku.

„Það var æskilegra að hlaupa í Bern en ég er tilbúinn að hlaupa hratt núna og get ekki beðið mikið lengur en í eina viku. Þess vegna ætla ég að reyna við hlaupið í Dresden næsta sunnudag í staðinn.“

Ólympíulágmark í fyrstu tilraun

Hlynur er handhafi sex Íslandsmeta utanhúss en hann hefur á undanförnum árum hreinsað upp öll metin á vegalengdum frá 3.000 metrum og upp í 21 kílómetra. Hann sló metið í hálfu maraþoni á heimsmeistaramótinu í þeirri grein, 21 kílómetra hlaupi, í Póllandi á síðasta ári, er hann hljóp á 1:02,47 mínútum. Nú stefnir hann á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég reyni við maraþon, ég hef þó hlaupið þau hálf nokkrum sinnum. Þetta er í raun hefðbundin leið fyrir langhlaupara, að byggja upp hraða yfir styttri vegalengdir. Svo þegar maður er orðinn aðeins eldri og búinn að byggja grunninn er hægt að hlaupa maraþon.“

Þótt hann hafi ekki áður reynt við heilt maraþon segist Vestmanneyingurinn ekki renna blint í sjóinn. „Það er oft sem menn hlaupa fyrsta maraþonið á góðum tíma. Þetta er hægara hlaup en maður er vanur, en auðvitað þarf að halda hraðanum í lengri tíma. Ég veit hvað ég er að fara út í.

Íslandsmetið mitt í hálfu maraþoni er klukkustund og tvær mínútur, ef þú tvöfaldar það þá er ég undir þessu lágmarki. Það er gerlegt við góðar aðstæður og ef ég á ágætan dag,“ sagði Hlynur Andrésson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert