Óþægilegt að vera líkt við undrabarn

„Það var mikið verið að tala um það á þessum tíma,“ sagði Guðmundur Eggert Stephensen, margfaldur Íslandsmeistari í borðtennis, um það hvort honum hefði reglulega verið líkt við undrabarn í íþróttinni, í Dagmálum, nýjum frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Guðmundur byrjaði að leika sér í borðtennis þriggja ára gamall og var orðinn öflugur spilari strax um átta ára aldurinn en hann á að baki farsælan feril sem atvinnumaður í greininni.

Guðmundur varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1994, þá ellefu ára gamall, en hann varð Íslandsmeistari tuttugu ár í röð áður en hann ákvað að leyfa öðrum að komast að.

„Mér fannst það frekar óþægilegt þegar það var verið að líkja mér við eitthvert undrabarn en auðvitað er alltaf gaman þegar gengur vel,“ sagði Guðmundur.

„Það hefði samt margt getað farið betur. Ég fer til dæmis allt of seint út og ég hefði í raun átt að fara út strax eftir grunnskólann í stað þess að hanga í Menntaskólanum við Sund,“ sagði Guðmundur meðal annars.

Viðtalið við Guðmund í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert