Forgangsmál að koma íþróttastarfi af stað

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir frjálsíþróttakonur.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir frjálsíþróttakonur. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir það vera forgangsmál hjá stjórnvöldum að koma íþrótta- og æskulýðsstarfi aftur af stað.

Allt íþróttastarf liggur niðri til 15. apríl hið minnsta vegna hertra reglna um sóttvarnaráðstafanir hér á landi. Lilja segir markmið yfirvalda að leyfa íþróttastarfi að hefjast aftur sem fyrst.

Það er forgangsmál hjá stjórnvöldum að koma íþrótta- og æskulýðstarfi af stað enda er um mikilvægt lýðheilsumál að ræða. Það er brýn þörf á að virkja iðkendur og tryggja samfellu í æfingum íþróttafólks,“ segir ráðherrann á Facebook-síðu sinni í dag.

Nú er markmiðið að íþróttastarf geti hafist samhliða sóttvarnaráðstöfunum. Fram hefur komið að mikil þörf er á að fyrirsjáanleiki aukist um hvernig skipulagi verði háttað. Mikilvægt er að samræmi sé í takmörkunum í skólastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarfi ásamt því að tryggja að skipulag íþróttastarfs sé sambærilegt í alþjóðlegu samhengi, eins og frekast er unnt.

Við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni unnið að því að undirbúa að umrædd starfsemi geti hafist við fyrsta tækifæri.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert