Ylfa samdi við Burton

Ylfa Rúnarsdóttir er búin að semja við snjóbrettarisann Burton.
Ylfa Rúnarsdóttir er búin að semja við snjóbrettarisann Burton. Ljósmynd/Aðsend

Ylfa Rúnarsdóttir, fremsta snjóbrettakona landsins, hefur samið við snjóbrettarisann Burton og verður þar með hluti af Evrópuliði fyrirtækisins.

Ylfa, sem er 26 ára gömul, hefur vakið athygli í snjóbrettaheiminum undanfarin ár enda tekur hún þátt í að ryðja brautina fyrir konur í íþróttinni með gífurlegri færni sinni á brettinu, sem hefur til að mynda fengið að njóta sín í heimildarmyndunum The Uninvited og The Uninvited II, þar sem nokkrar af fremstu snjóbrettakonum heims eru í aðalhlutverki, Ylfa þeirra á meðal.

Hún flutti aðeins 15 ára gömul til Svíþjóðar og fór í mennta­skól­a sem bauð upp á afreksíþróttabraut í vetr­aríþrótt­um. Ylfa býr enn í Svíþjóð og samdi við Burton í febrúar á þessu ári. Kveðst hún hlakka til samstarfsins enda ánægð með viðleitni fyrirtækisins til þess að gera konum hátt undir höfði.

„Það sem talar til mín er markmið Burton að lyfta konum í senunni upp. Ég vil vera hluti af því. Þegar ég hugsa um Burton verður mér hugsað til þeirra litríku mynda og sagna sem ég hef séð og heyrt frá íþróttinni á 10. áratug síðustu aldar. Burton er risastór hluti af sögu snjóbrettaíþróttarinnar og það er mér mikils virði að fá að vera hluti af henni,“ sagði Ylfa í samtali við Method-tímaritið í febrúar.

Hún bætti því við að það væri til margs að hlakka nú þegar hún er orðinn hluti af Evrópuliði Burton. „Ég hlakka til að fara á snjóbrettið og tjá mig á því, og með því eiga þátt í því að ryðja veginn fyrir stelpurnar sem eru að koma upp í íþróttinni.“

Hér að neðan má sjá Burton bjóða Ylfu velkomna í Evrópulið sitt, þar sem hún leikur listir sínar:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert