Japanir vilja ekki Ólympíuleikana í sumar

Ólympíuleikarnir 2020 eiga að fara fram sumarið 2021.
Ólympíuleikarnir 2020 eiga að fara fram sumarið 2021. AFP

Japanir eru almennt á móti því að Ólympíuleikarnir verði haldnir í Tókýó í sumar eins og  til stendur en þeim var frestað fyrir ári vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta er niðurstaðan úr skoðanakönnun sem Koydo News birti í morgun, rétt rúmum eitt hundrað dögum áður en leikarnir eiga að hefjast.

Samkvæmt henni vilja 39,2 prósent landsmanna að leikunum verði aflýst og önnur 32,8 prósent vilja að þeim verði frestað í annað sinn. Samtals eru því 72 prósent Japana andvíg því að halda leikana á tilsettum tíma.

Aðens 24,5 prósent þátttakenda í könnuninni svöruðu því að þau vildu að leikarnir færu fram samkvæmt áætlun en þeir eiga að hefjast föstudaginn 23. júlí og ljúka sunnudaginn 8. ágúst. Í framhaldi af því fer Ólympíumót fatlaðra, Paralympics, fram á sama stað frá 24. ágúst til 5. september.

Japanir berjast um þessar mundir við fjórðu bylgju kórónuveirunnar og bólusetning hefur gengið hægt í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert