Youtube-stjarnan rotaði MMA-kappann

Jake Paul hrósaði sigri í nótt.
Jake Paul hrósaði sigri í nótt. AFP

Youtube-stjarnan Jake Paul vann sinn þriðja atvinnuboxbardaga í röð í nótt þegar hann rotaði Ben Askren, sem var um skeið bardagakappi í UFC í blönduðum bardagalistum.

Paul þurfti aðeins eina mínútu til þess að rota Askren, sem hefur unnið til fjölda titla í blönduðum bardagalistum en var að taka þátt í sínum fyrsta boxbardaga á ferlinum.

Paul hafði áður unnið youtube-stjörnuna AnEsonGib, réttu nafni Ali Loui Al-Fakhri, og fyrrverandi NBA-leikmanninn Nate Robinson.

Paul segist vera full alvara með boxferil sinn og óskar þess að fólk fari nú að taka hann alvarlega.

„Ég sagði ykkur að ég myndi klára þetta í fyrstu lotu. Ég sagði ykkur að ég er alvörubardagamaður. Ég veit ekki hversu oft ég þarf að sanna mig og sýna fram á að mér er alvara með þessu,“ sagði Paul eftir bardagann.

Hann sagðist hafa vitað hverju hann mætti eiga von á frá Askren. „Ég vissi að Ben myndi bara vera þarna eins og dæmigerður MMA-bardagamaður og sleppa því að hreyfa höfuð sitt nógu mikið. Ég er bara of öflugur.“

Askren baðst afsökunar á frammistöðu sinni eftir bardagann og skrifaði á twitter-aðgang sinn: „Fyrirgefið mér heimur.“

Hann sagði einnig: „Ég var rotaður af Jake Paul. Það er djöfull vandræðalegt.“

Ben Askren baðst afsökunar á frammistöðu sinni.
Ben Askren baðst afsökunar á frammistöðu sinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert