Stórsigur í fyrsta leik

Skautafélag Akureyrar er ríkjandi Íslandsmeistari í íshokkí kvenna.
Skautafélag Akureyrar er ríkjandi Íslandsmeistari í íshokkí kvenna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skautafélag Akureyrar, SA, fer vel af stað í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna en liðið vann stórsigur gegn Fjölni í fyrsta leik liðanna í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.

Leiknum lauk með 13:1-sigri SA en tvo sigra þarf til þess tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

SA leiddi 7:0-eftir fyrsta leikhluta en Akureyringar bættu við fjórum mörkum til viðbótar í öðrum leikhluta og tveimur til viðbótar í þeim þriðja áður en Laura Murphy klóraði í bakkann fyrir Fjölni í stöðunni 13:0.

Sunna Björgvinsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir SA, Saga Sigurðardóttir og Hilma Bergsdóttir tvö mörk hvor og þær María Eiríksdóttir, Kolbrún Garðarsdóttir, Berglind Leifsdóttir, Jónína Guðbjartsdóttir, Teresa Snorradóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir sitt markið hver.

Annar leikur liðanna fer fram í Egilshöllinni í Grafarvogi á fimmtudaginn kemur og getur SA tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri.

mbl.is