„Drulluerfitt að kveðja“

„Ég hef ákveðið að leggja afreksskóna á hilluna og kveðja afreksíþróttamanninn,“ sagði Ari Bragi Kárason, fljótasti maður landsins og margfaldur Íslandsmeistari í spretthlaupum, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ari Bragi er Íslandsmethafi í 100 metra spretthlaupi karla en hann bætti nítján ára gamalt met Jóns Arnars Magnússonar árið 2016 í greininni þegar hann hljóp á 10,52 sekúndum á spretthlaupsmóti FH í Hafnarfirði.

Hann bætti svo eigið Íslandsmet ári síðar um einn hundraðshluta úr sekúndu þegar hann hljóp á tímanum 10,51 sekúndu á Coca-Cola móti í Kaplakrika en hann hefur verið annar fyrirliði íslenska frjálsíþróttalandsliðsins undanfarin ár.

„Nú er kominn nýr kafli í mínu lífi og maður upplifir nýjar tilfinningar þegar maður eignast lítið barn,“ sagði Ari.

„Lífið hættir allt í einu að snúast um mann sjálfan og ég held að þetta sé fullkomin tímasetning því ég get gengið mjög sáttur frá borði,“ sagði Ari meðal annars.

Viðtalið við Ara Braga í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert