Galið umhverfi sem íþróttafólk býr við

„Mér finnst þetta galið umhverfi,“ sagði Ari Bragi Kárason, fljótasti maður landsins og margfaldur Íslandsmeistari í spretthlaupum, um þær aðstæður sem íslenskt afreksíþróttafólk býr við í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ari Bragi byrjaði að æfa frjálsar íþróttir þegar hann var 24 ára gamall og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn ári síðar.

Í desember 2019 skrifaði Ari Bragi undir yfirlýsingu sem send var Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og íþróttamálaráðherra, þar sem afreksíþróttafólk þar sem hún var hvött til þess að vinna í réttinda- og launamálum íslenskra íþrótamanna.

„Þessir styrkir sem eru veittir til mjög afmarkaðs hóps eru ekki nóg til þess að fjármagna æfinga- og keppnisferðir, næringu, húsnæði, þjálfarakostnað og allt það sem fylgir því að vera afreksíþróttamaður,“ sagði Ari.

„Fyrirtæki hér á landi styrkja afreksíþróttafólk oftast með einhverjum vörum og búnaði og gera það sem þau geta í þeim málum en það kemur ekkert í staðinn fyrir peninga.

Það má gera betur í þessu þó það hafi auðvitað frábærir hlutir átt sér sað innan ÍSÍ en það má alltaf gera betur,“ sagði Ari meðal annars.

Viðtalið við Ara Braga í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is