Gamla ljósmyndin: Kastarar í fremstu röð

Morgunblaðið/Ágúst Ingi Jónsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Íslendingar hafa átt marga kastara í gegnum tíðina sem hafa náð því að vera samkeppnishæfir innan um þá bestu í heiminum. 

Á meðfylgjandi mynd eru tveir kastarar sem hlotið hafa sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Til vinstri er Erlendur Valdimarsson kringlukastari og til hægri er Óskar Jakobsson kúluvarpari. 

Myndin er tekin í Luleå í norðurhluta Svíþjóðar þegar íslenskt frjálsíþróttafólk keppti þar í Kalott-keppninni í júlí árið 1974. Umfjöllun um árangur Íslendinga í keppninni birtist 31. júlí 1974 með texta og myndum frá hinum kunna blaðamanni Ágústi Inga Jónssyni sem enn starfar á blaðinu. 

Óskar er með spjót á myndinni og ekki að ástæðulausu. Hann hafði það gott vald á greininni að hann þeytti spjótinu 73,72 metra á mótinu og setti Íslandsmet þótt hann hafi síðar á ferlinum einbeitt sér að kúluvarpi. Varð Óskar í öðru sæti í greininni og Erlendur sigraði í kringlukastinu. 

Erlendur Valdimarsson var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1970 og fékk fullt hús stiga í kjörinu. Erlendur kastaði kringlunni lengst 64,72 metra árið 1974 sem þá var Íslandsmet og tólfti besti árangurinn í heiminum það ár. Erlendur keppti á Ólympíuleikunum í München árið 1972 en þar settu meiðsli strik í reikninginn. 

Óskar Jakobsson var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1982. Óskar kastaði kúlunni lengst 20,61 metra árið 1982. Óskar var svo fjölhæfur að hann á einnig frábæran árangur í kringukasti 63,24 metra og 76,32 metra í spjótkasti. Óskar keppti á Ólympíuleikunum í Montreal árið 1976 í spjótkasti og í Moskvu árið 1980 í kúluvarpi og hafnaði þá í 11. sæti.

mbl.is