HK í úrslit

Leikmenn HK fagnar í rimmunni gegn Þrótti Neskaupstað í dag.
Leikmenn HK fagnar í rimmunni gegn Þrótti Neskaupstað í dag. Ljósmynd/Sigga Þrúða

Þróttur frá Neskaupstað fékk HK í heimsókn í dag í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki. HK hafði unnið fyrri leikinn og vann í dag 3:0 sigur og er þar með komið í úrslit Í

HK var með yfirhöndina allan tímann í fyrstu hrinu og vann hana 25:13.

Í annarri hrinu byrjaði HK sömuleiðis af gífurlegum krafti og náði góðu forskoti. Þrátt fyrir góðan sprett undir lok hrinunnar þar sem Þróttur náði að minnka muninn endaði HK á að vinna hana 25:19.

Þriðja hrinan var jöfnust, eða allt þar til í stöðunni 13:13. Þá sigldi HK fram úr og vann að lokum 25:19, þar með leikinn 3:0 og einvígið 2:0.

Stigahæstu leikmenn HK voru Hjördís Eiríksdóttir með 14 stig og Heba Sól stefánsdóttir með 10.  Í Þrótti voru stigahæstar Ester Rún Jónsdóttir með átta og Tinna Rut Þórarinsdóttir með sjö.

HK spilar sterka hávörn í leiknum í Neskaupstað í dag.
HK spilar sterka hávörn í leiknum í Neskaupstað í dag. Ljósmynd/Sigga Þrúða

HK eru ríkjandi deildar- og bikarmeistarar og voru því sigurstranglegri í einvíginu, en liðið vann báða leikina nokkuð örugglega og munaði þar helst um afar sterka hávörn HK-liðsins.

Í úrslitum mun HK annað hvort mæta Aftureldingu eða KA, en þau mætast klukkan 19 í kvöld. Afturelding vann fyrsta leikinn og getur með sigri í kvöld tryggt sig í úrslit. Sigri KA mætast liðin í oddaleik.

Helstu upplýsingar úr leiknum eru fengnar af Blakfréttum.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert