„Leiðinlegt að sjá tímann fara“

Arnar Pétursson gengur í mark í mótslok.
Arnar Pétursson gengur í mark í mótslok. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Maraþonhlauparinn Arnar Pétursson segir það hafa verið svekkjandi að ná ekki settu marki fyrir Víðavangshlaup ÍR sem fram fór í dag, en Arnari var vísuð lengri leið að marki sem tafði fyrir honum. Arnar hljóp vegalengdina þrátt fyrir mistökin á 15,23 mínútum og vann í hlaupinu. 

Frjálsíþróttadeild ÍR sendi í dag frá sér tilkynningu og harmaði mistökin. 

Í samtali við mbl.is lýsir Arnar uppákomunni: 

„Það er alltaf í hlaupum hjól sem leiðir fyrsta mann áfram til að passa að það sé farin rétt leið. Þegar við komum þarna að síðustu beygjunni heldur hann áfram – ég hef hlaupið þessa leið áður og vissi að ég átti að beygja, en maður á náttúrulega alltaf að fara eftir fyrirmælum frá undanfaranum þannig að ég fer fyrst réttu beygjuna, svo er mér bent að fara á eftir honum og þá fer ég hina leiðina. Svo þegar hann er kominn á ákveðinn stað og fattar hvað hann hefur gert snýr hann við og bendir mér að fara aftur yfir á réttu leiðina. Þá er maður algjörlega búinn að missa taktinn og fara miklu lengri leið en maður átti að fara,“ segir Arnar. 

Arnar hafði sett sér það markmið að hlaupa kílómetrana fimm á undir 15 mínútum, en hans besti tími í vegalengdinni er 15,00. 

„Það var leiðinlegt að sjá tímann fara, hann var á góðri leið að fara undir 15 mínútur í fimm kílómetrum. Það er alltaf mark sem mann langar að vera undir. Þetta var smá skrítin tilfinning, maður var svekktur að fá ekki að sjá 14- eitthvað á klukkunni. Þetta var kjörið tækifæri til þess að ná þessu, það hefði verið gaman að gera það í dag,“ segir Arnar og bætir við að hann hafi gengið síðustu metrana:

„Þegar ég kom að markinu þá labbaði ég bara síðustu metrana, ég var orðinn frekar súr í skapinu.“

Arnar segir að þrátt fyrir svekkelsið hafi verið gaman að fara með sigur af hólmi í hlaupinu. 

„Þeim fannst þetta öllum rosa leiðinlegt. Undanfarinn og brautarverðirnir voru alveg miður sín. Það var gott að fá smá afsökunarbeiðni, en það er alltaf skrítið að vera búinn að keyra út allt hlaupið og reyna að fá þessi verðlaun sem eru í rauninni tíminn, og fá þau síðan ekki. Það er ótrúlega gaman samt að vinna og verða Íslandsmeistari, maður er ekkert svekktur með það,“ segir Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert