Már rak höfuðið í bakkann

Már Gunnarsson er á meðal þátttakenda á Evrópumeistaramóti IPC í …
Már Gunnarsson er á meðal þátttakenda á Evrópumeistaramóti IPC í Portúgal. Ljósmynd/ÍF

Sundmaðurinn Már Gunnarsson lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að reka höfuðið í bakkann í 50 metra skriðsundi á Evrópumeistaramóti IPC sem fram fer í Madeira í Portúgal í gær.

Már keppir í fötlunarflokki S11 og synti á tímanum 29,24 sekúndur en hann festi hægri höndina í brautarlínunni og rak höfuðið í bakkann.

Það leynast áhættur í öllum íþróttum og þær minnka ekki í íþróttum blindra,“ skrifaði Már á Facebook-síðu sinni.

„Ég stakk mér til sunds í morgun í 50 m skriðsundi og ætlaði svo sannarlega að bæta mig en á leiðinni festi ég hægri höndina í brautarlínunni og í stað þess að stöðva tímatökubúnaðinn á hefðbundinn hátt í innkomunni barði ég í búnaðinn hjá næsta manni á annarri braut og stöðvaði minn eigin tíma með höfuðkúpunni á mér.

Sem betur fer virðist ekkert vera brotið, mögulega tognun og má maður vera þakklátur fyrir að ekki verr fór en svo og þá skiptir ekki máli hálf sekúnda til eða frá. Er ekki sagt, fall er fararheill? Þannig lít ég á það fyrir þær fjórar greinar sem eftir eru,“ bætti Íslendingurinn við.

mbl.is