Bað guð að hjálpa sér

„Það er eitthvað svo gott við það að verða þreyttur, svangur og bugaður í löppunum,“ sagði Þorbergur Ingi Jónsson, einn fremsti langhlaupari landsins, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Þorbergur tók þátt í Ultra-Trail du Mont-Blanc-langhlaupinu í Chamonix í Frakklandi í fyrsta sinn árið 2015 þar sem hann hljóp 101 kílómetra með rúmlega 6.100 metra hækkun.

Þorbergur hafnaði í sextánda sæti í hlaupinu en síðan þá hefur hann tvívegis hlaupið 171 kílómetra með rúmlega 10.400 metra hækkun í sama hlaupaviðburði, árin 2018 og 2019, en hlaupið er talið það erfiðasta í heiminum í dag.

„Þú verður alveg hamraður í svona hlaupum og algjörlega orkulaus en tilfinningin að komast upp úr þessum djúpa dal af bugun er algjörlega geggjuð. Þetta er ótrúlega gefandi fyrir hausinn á manni og maður kemur mun sterkari út fyrir vikið. Ég upplifi ekki svona stolt í styttri hlaupum. 

Í Chamonix árið 2018 lenti ég á slæmum vegg. Þar var dalurinn ansi djúpur og ég var ekki að komast upp úr honum. Ég bað meira að segja til guðs að hjálpa mér þarna á ákveðnum tímapunkti,“ sagði Þorbergur meðal annars.

Viðtalið við Þorberg í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert