Sló tveggja daga heimsmet - nýir gaddar opna flóðgáttir

Letesenbet Gidey setti glæsilegt heimsmet í kvöld.
Letesenbet Gidey setti glæsilegt heimsmet í kvöld. AFP

Letesenbet Gidey frá Eþíópíu gerði sér lítið fyrir og bætti í kvöld tveggja sólarhringa gamalt heimsmet í 10 þúsund metra hlaupi kvenna á móti í heimalandi sínu.

Á sunnudaginn bætti hin hollenska Sifan Hassan, sem reyndar er fædd í Eþíópíu, heimsmetið í greininni á móti í Hengelo í Hollandi um heilar 10 sekúndur.

Í kvöld hljóp Gidey á 29:01,03 mínútum og bætti met Hassan um rúmar fimm sekúndur. Þar með er hún fyrsta konan í 28 ár sem á  bæði heimsmetin í 5.000 og 10.000 metra hlaupum á sama tíma. Þá var það Ingrid Kristiansen sem átti metin á árunum 1986 til 1993.

The Guardian fjallar um heimsmetin í kvöld og segir þau vera tilkomin vegna nýrra og byltingarkenndra gadda undir hlaupaskónum. Alþjóða frjálsíþróttasambandið hafi breytt reglum um gadda árið 2019 og við það hafi opnast flóðgáttir. Á síðustu tíu mánuðum hafi heimsmet verið slegin í 5.000 og 10.000 metra hlaupum karla og kvenna, sem og í 5 km, 10 km götuhlaupum og hálfu maraþoni. Talið sé að gaddarnir bæti frammistöðu hvers keppanda um hálfa til eina sekúndu á hverjum hring hlaupabrautarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert