Gerði „stór mistök“ á Íslandi

Phil Foden á landsliðsæfingu í gær.
Phil Foden á landsliðsæfingu í gær. AFP

Phil Foden hefur viðurkennt að hafa gert „stór mistök“ þegar hann virti reglur enska landsliðsins í knattspyrnu vegna kórónuveirunnar að vettugi á Íslandi á síðasta ári. Hann þakkar Gareth Southgate landsliðsþjálfara fyrir að hafa veitt sér annað tækifæri.

Foden, sem er framherji Manchester City, var fyrst valinn í landsliðið í september í fyrra. Það endaði með því að hann og Mason Greenwood úr Manchester United voru sendir heim í refsiskyni fyrir að hafa hitt tvær íslenskar stúlkur á hóteli þar sem landsliðið dvaldi í Reykjavík.

Phil Foden í leik gegn Albaníu.
Phil Foden í leik gegn Albaníu. AFP

Hvorugur þeirra var valinn í landsliðið þegar næstu leikir voru spilaðir í október en Foden sneri aftur í nóvember og hefur síðan þá verið einn af lykilmönnum liðsins og skorað tvívegis í sex leikjum.

Foden, sem er 21 árs, verður hugsanlega í byrjunarliðinu gegn Króatíu á sunnudaginn á EM á Wembley-leikvanginum.

„Ég gerði stór mistök,“ sagði Foden við Independent. „Ég var ungur. Gareth sagði mér að ef ég héldi áfram að standa mig vel gæti ég fengið annað tækifæri, þannig að ég þurfti að leggja mikið á mig til þess,“ bætti hann við.

„Ekki margir stjórar hefðu gefið mér slíkt tækifæri og þess vegna vil ég þakka Gareth fyrir að gefa mér annað tækifæri.“

mbl.is