Glæsilegur árangur á stærsta móti tímabilsins

Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson, fyrsti og annar …
Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson, fyrsti og annar frá vinstri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson náðu afar góðum árangri í spjótkasti á bandaríska háskólameistaramótinu í frjálsíþróttum í Eugene í Oregon í nótt. Mótið er það stærsta á tímabilinu. 

Dagbjartur hafnaði í öðru sæti með kast upp á 76,98 metra, en Íslandsmet Einars Vilhjálmssonar í greininni er 86,80 metrar. Dagbjartur á best 78,30 metra og er í sjötta sæti yfir þá Íslendinga sem hafa kastað lengst frá upphafi. 

Sindri kastaði lengst 75,61 metra og hafnaði í fimmta sæti. Sindri á best 80,91 metra frá árinu 2018 en aðeins áðurnefndur Einar Vilhjálmsson og Sigurður Einarsson hafa kastað lengra. 

Sindri og Dagbjartur kasta báðir fyrir Mississippi State-háskólann. Þeir eru báðir skráðir til leiks á Meistaramóti Íslands á Akureyri um helgina.

Þrátt fyrir góðan árangur voru Íslendingarnir nokkuð langt frá ólympíulágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar en lágmarkið er 85 metrar. Ekki er gert ráð fyrir að allir nái yfir lágmarkið, en farið verður eftir heimslista IAAF til að ákveða hvaða kastarar sem ekki  náðu lágmarkinu fara á Ólympíuleikana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert