Hafði betur eftir fjóra klukkutíma

Novak Djokovic og Rafael Nadal takast í hendur eftir ótrúlegan …
Novak Djokovic og Rafael Nadal takast í hendur eftir ótrúlegan leik. AFP

Serbinn Novak Djokovic tryggði sér sæti í úrslitum Opna franska meistaramótsins í tennis eftir ótrúlegan sigur gegn Spánverjanum Rafael Nadal í undanúrslitum mótsins í París í gærkvöldi.

Nadal vann fyrsta settið 6:3 en Djokovic jafnaði metin strax í öðru setti í 1:1 með 6:3-sigri. Djokovic vann þriðja settið 7:6 eftir nokkrar upphækkanir en í heildina tók settið rúmlega eina og hálfa klukkustund.

Djokovic vann svo fjórða settið 6:2 og einvígið því samanlagt 3:1 en leikurinn stóð yfir í rúmlega fjórar klukkustundir.

Áhorfendur á Roland Garros-vellinum þurftu sérstakt leyfi franskra yfirvalda til þess að fylgjast með leiknum allt til enda þar sem útgöngubann ríkir í Frakklandi eftir klukkan 23 vegna kórónuveirufaraldursins.

Djokovic mætir Grikkjanum Stefanos Tsitsipas í úrslitum keppninnar sem fara fram á morgun.

mbl.is