Sigraði með besta kasti ársins

Guðni Valur kastar kringlunni í dag.
Guðni Valur kastar kringlunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Guðni Valur Guðnason úr ÍR vann öruggan sigur í kringlukasti á 95. Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Þórsvelli á Akureyri í dag en þá fór fyrri hluti mótsins fram. Guðni kastaði kringlunni 61,60 metra sem er besta kast ársins á Íslandi. Íslandsmet hans er 69,35 metrar.

Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni vann gríðarlega öruggan sigur í hástökki. Strákurinn ungi stökk 2,12 metra, rétt tæplega 20 sentimetrum hærra en næstu menn.

Þá vann Hilmar Örn Jónsson úr FH afar sannfærandi sigur í sleggjukasti. Hilmar kastaði lengst 70,57 metra og var tæpum 20 metrum á undan næstu mönnum.

Kristján Viggó Sigfinnsson stekkur á Akureyri í dag.
Kristján Viggó Sigfinnsson stekkur á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Pétursson úr Breiðabliki vann 3.000 metra hindrunarhlaup er hann hljóp á 9:41,79 mínútum og hafði gríðarlega yfirburði, en aðeins tveir keppendur tóku þátt í greininni.

Í 200 metra hlaupi kom Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH fyrstur í mark á 21,61 sekúndu, um hálfri sekúndu á undan Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni úr UMSS.

Arnar Pétursson vann öruggan sigur í hindrunarhlaupi.
Arnar Pétursson vann öruggan sigur í hindrunarhlaupi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR og Sindri Hrafn Guðmundsson úr FH, sem náðu góðum árangri á banda­ríska há­skóla­meist­ara­mót­inu á dögunum, kepptu í spjótkasti. Dagbjartur vann með kasti upp á 79,57 metra sem er hans besta kast. Sindri varð annar með kast upp á 74,99 metra. Hinn gamalkunni kastari Guðmundur Hólmar Jónsson úr UFA sem er orðinn 42 ára gamall varð þriðji með 59,20 metra.

Hulda Þorsteinsdóttir úr ÍR sigraði í stangarstökki kvenna, stökk 3,42 metra.

Kristinn Torfason úr FH sigraði í þrístökki karla, stökk 14,05 metra, fjórum sentimetrum lengra en Bjarki Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki.

Ísak Óli Traustason úr UMSS sigraði í 110 m grindahlaupi karla á 15,05 sekúndum.

Arndís Diljá Óskarsdóttir úr FH sigraði í spjótkasti kvenna, kastaði 42,29 metra.

Baldvin Þór Magnússon úr UFA sigraði í 1.500 metra hlaupi karla á 4:01,20 mínútum.

Kristján Viktor Kristinsson úr ÍR sigraði í kúluvarpi karla, kastaði 16,10 metra.

Sæmundur Ólafsson úr ÍR sigraði í 400 m hlaupi karla á 49,80 sekúndum.

Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir úr FH sigraði í 1.500 m hlaupi kvenna á 4:49,35 mínútum.

Sveit FH sigraði í 4x100 metra boðhlaupi karla á 43,03 sekúndum. Hana skipuðu Daði Lár Jónsson, Kristófer Þorgrímsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason.

Sveit ÍR sigraði í 4x100 metra boðhlaupi kvenna á 47,22 sekúndum. Sveitina skipuðu Hildigunnur Þórarinsdóttir, Tiana Ósk Whitworth, Helga Margrét Haraldsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.

Keppni heldur áfram á morgun, sunnudag, frá klukkan 10 og lýkur með 4x400 m boðhlaupum karla og kvenna klukkan 14.00 og 14.10.

Dagbjartur Daði Jónsson vann spennandi spjótkastkeppni.
Dagbjartur Daði Jónsson vann spennandi spjótkastkeppni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert