Kolbeinn sigraði á besta tíma ársins – Ingi vann tvöfalt

Kolbeinn Höður kemur fyrstur í mark í dag.
Kolbeinn Höður kemur fyrstur í mark í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH náði sínum besta tíma á árinu er hann hljóp 100 metra hlaup á 10,89 sekúndum og kom fyrstur í mark á 95. Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Þórsvelli á Akureyri í dag. Liðsfélagi hans hjá FH, Kristófer Þorgrímsson, varð annar á 11,23 sekúndum.

Arnar Pétursson, einn fremsti langhlaupari landsins, hljóp 5.000 metra hlaup á 15,28,46 mínútum og kom langfyrstur í mark. Arnar keppir fyrir Breiðablik.

Arnar Pétursson á fleygiferð í dag.
Arnar Pétursson á fleygiferð í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki vann afar spennandi keppni í langstökki en hann stökk lengst 6,34 metra, einum sentimetra lengra en Birnir Vagn Finnsson úr UFA. Ingi Rúnar vann einnig stangarstökk með stökk upp á 4,22 metra. 

Sæmundur Ólafsson úr ÍR var með nokkra yfirburði í 800 metra hlaupi. Hann hljóp á 1,56,91 sekúndu og var tæpum þremur sekúndum á undan næstu mönnum.

Ingi Rúnar Kristinsson vann langstökk og stangarstökk.
Ingi Rúnar Kristinsson vann langstökk og stangarstökk. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR kom fyrstur í mark í 400 metra grindahlaupi en hann hljóp vegalengdina á 54,42 sekúndum. Þá vann sveit Fjölnis 4 x 400 metra boðhlaupið á 1,28,40 sekúndum og var með nokkra yfirburði á FH sem varð í öðru sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert