Serbinn hafði betur eftir fjóra klukkutíma

Novak Djokovic hafði betur í hörkuúrslitaeinvígi.
Novak Djokovic hafði betur í hörkuúrslitaeinvígi. AFP

Serbinn Novak Djokovic vann á Opna franska mótinu í tennis eftir sigur í hörkuúrslitaeinvígi gegn Grikkjanum Stefanos Tsitsipas í dag.

Djokovic vann leikinn 3:2 eftir að hafa tapað fyrstu tveimur settunum, 6:7 (6:8 eftir upphækkun) og 2:6. Því næst vann hann þrjú í röð, 6:3, 6:2 og 6:4, en einvígið tók alls rúmar fjórar klukkustundir.

Það voru því engin smá einvígi sem Serbinn háði á mótinu en hann vann Spánverjan Rafael Nadal í undanúrslitum í gær í einvígi sem einnig tók rúmar fjórar klukkustundir.

Djokovic hefur þar með unnið tvisvar á Opna franska mótinu en hann vann fyrst árið 2016 og hefur nú unnið alls 19 risatitla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert