Setti heimsmet í baksundi

Kaylee McKeown gráti næst af gleði eftir að hafa sett …
Kaylee McKeown gráti næst af gleði eftir að hafa sett heimsmet í 100 metra baksundi í dag. AFP

Ástralska sundkonan Kaylee McKeown setti í dag heimsmet í 100 metra baksundi í undankeppni í Adelaide í Ástralíu fyrir Ólympíuleikana í Japan.

Hin 19 ára gamla McKeown bætti fyrra metið, sem var í eigu hinnar bandarísku Regan Smith, um 12 sekúndubrot. McKeown synti á 57,45 sekúndum.

Hún tileinkaði metið fjölskyldu sinni, en faðir hennar lést eftir tveggja ára baráttu við heilakrabbamein fyrir 10 mánuðum.

Andlát föður McKeown veitti henni innblástur. „Vegna Covid og andláts föður míns í ágúst á síðasta ári er þetta búin að vera gífurleg uppbygging fyrir þessa undankeppni og ég hef notað það sem ákveðið hungur og hvatningu.

Ég nota það [andlát föður hennar] á hverjum degi sem ég vakna. Ég veit að það eru forréttindi að fá að vera á þessari jörðu og ganga um og tala. Þannig að það koma hérna og gera þetta er í rauninni ekki fyrir mig heldur fjölskyldu mína,“ sagði hún í samtali við Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert