Tilþrif og spenna í annarri keppni sumarsins

Stefán Kristjánsson átti góðan dag í DS-flokki.
Stefán Kristjánsson átti góðan dag í DS-flokki. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Hart var tekist á í öðru Íslandsmóti Kvartmíluklúbbsins á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði nú um helgina en keppt var í fjórum flokkum bíla og þremur flokkum mótorhjóla. Veðrið á laugardaginn lék við þátttakendur og voru aðstæður til keppni því góðar, brautin þurr og ágætisgrip.

Tilþrifin voru oft og tíðum mögnuð en bæði getur verið keppt um stysta tíma og einnig að ná að hitta á sem næst uppgefnum tíma í flokki, sem getur verið spurning um tilfinningu ökumanns í bland við getu ökutækisins.

Svakaleg átök í opnum flokki (OF) bíla

Hörð keppni var milli þeirra Stefáns Helgasonar og Ingólfs Arnarssonar, en báðir aka dragster-bílum (grindarbílum), í opnum flokki. Stefán endaði sem sigurvegari og er hann einu stigi á eftir Ingólfi til Íslandsmeistara eftir tvær keppnir með 208 stig, en Ingólfur er efstur með 209 stig.

Stefán Helgason og Ingólfur Arnarsson takast á.
Stefán Helgason og Ingólfur Arnarsson takast á. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Hilmar Jacobsen sigurvegari í TS-flokki

Það var Hilmar Jacobsen á Saleen Mustang sem sigraði í TS-flokki, þar sem keppt er að því að ná sem næst tímanum 9,99 sekúndum án þess að mega fara undir tímann. Hilmar er þrautreyndur í flokknum en í öðru sæti varð Harry Samúel Herlufsen. Hilmar leiðir flokkinn í Íslandsmótinu með 210 stig, næst á eftir honum er Hafsteinn Valgarðsson með 195 stig og þriðji er Harry Samúel Herlufsen með 170 stig.

Stefán Kristjánsson með töluvert stigaforskot í DS-flokki

Í flokki „Door Slammer“, þar sem allar breytingar eru leyfðar, situr Stefán Kristjánsson í efsta sæti til Íslandsmeistara eftir sigur dagsins. Stefán er með 115 stig en hann sigraði Rúdolf Jóhannsson í hörkuspennandi úrslitarimmu um gullið.

Einnig var keppt í þremur flokkum mótorhjóla þar sem hart var barist í flokki breyttra hjóla, Björn Sigurbjörnsson sigraði í flokknum eftir harða baráttu við Grím Helguson og sitja þeir félagar einnig í fyrsta og öðru sæti til Íslandsmeistara í sömu röð.

Björn Sigurbjörnsson tekur af stað í flokki breyttra mótorhjóla.
Björn Sigurbjörnsson tekur af stað í flokki breyttra mótorhjóla. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Aðstæður til kappaksturs á svæði Kvartmíluklúbbsins hefur tekið stökkbreytingum undanfarið. Ötulir félagsmenn KK hafa lagt mikið á sig til að gera svæðið mun aðgengilegra og tæknilegra, og þjónar svæðið orðið fjölmörgum akstursíþróttagreinum. Þar má nefna bæði kvartmílu og sandspyrnu, ásamt hringaksturssvæði og torfæru, svo fátt eitt sé nefnt. Segja má því að svæðið bjóði upp á miklu fleiri möguleika en áður er varðar viðburði til akstursíþrótta og er það stór liður í þjónustu við þá metnaðarfullu keppendur er æfa og keppa í akstursíþróttum, ásamt almennri ökukennslu.

Úrslit dagsins:

OF-flokkur

  1. sæti Stefán Hjalti Helgason
  2. sæti Ingólfur Arnarson

3.-4. sæti             Leifur Rósinbergsson

3.-4. sæti             Harry Hólmgeirsson

DS-flokkur

  1. sæti Stefán Kristjánsson
  2. sæti Rúdolf Jóhannsson

3.-4. sæti             Guðmundur Þór Jóhannsson

3.-4. sæti             Ari Jóhannsson

TS-flokkur

  1. sæti Hilmar Jacobsen
  2. sæti Harry Samúel Herlufsen
  3. sæti Hafsteinn Valgarðsson

SS-flokkur

  1. sæti Bjarki Hlynsson
  2. sæti Örn Ingimarsson
  3. sæti Halldór Helgi Ingólfsson          

Mótorhjól

-G-flokkur

  1. sæti Ingi Björn Sigurðsson
  2. sæti Erla Sigríður Sigurðardóttir

+G-flokkur

  1. sæti Guðmundur Alfreð Hjartarson
  2. sæti Davíð Þór Einarsson
  3. sæti Hákon Heiðar Ragnarsson

B-flokkur

  1. sæti Björn Sigurbjörnsson
  2. sæti Grímur Helguson
  3. sæti Jón H. Eyþórsson
Hilmar Jacobsen sigraði í TS-flokki á Saleen Mustang.
Hilmar Jacobsen sigraði í TS-flokki á Saleen Mustang. Ljósmynd/B&B Kristinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert