Vigdís hættir aðeins 26 ára

Vigdís Jónsdóttir er hætt keppni.
Vigdís Jónsdóttir er hætt keppni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Vigdís Jónsdóttir, önnur af tveimur fremstu sleggjukastskonum landsins, hefur tilkynnt að hún sé hætt keppni. Síðasta mót Vigdísar var Meistaramót Íslands á Akureyri en hún hafnaði í öðru sæti í greininni í gær.

„Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta í sleggjukasti. Ég er komin með nóg og andlega hliðin mín höndlar þetta ekki lengur. Ég er búin að ganga í gegnum nóg upp á síðkastið og það kominn tími til að slíta mig frá þessu öllu saman. Ég bara get ekki meir,“ skrifaði Vigdís á Facebook.

Vigdís er næstbesti sleggjukastari landsins í dag og fyrrverandi Íslandsmethafi en hún á best 63,44 metra. Hún viðurkennir í samtali við RÚV að hún hafi ekki andlegan styrk í að halda áfram í sleggjukasti. „Þetta er búið að liggja í loftinu lengi. Ég er bara að gefast upp. Þetta tímabil hefur opnað augu mín fyrir því að ég hafi ekki andlega styrkinn til að halda áfram í þessari íþrótt,“ sagði Vigdís við RÚV.

mbl.is