„Ég er að verða ég sjálf aftur“

Anníe Mist Þórisdóttir verður í hópi fjögurra Íslendinga á heimsleikunum …
Anníe Mist Þórisdóttir verður í hópi fjögurra Íslendinga á heimsleikunum í crossfit síðar í sumar. Aðeins eru 10 mánuðir frá því að Anníe Mist eignaðist dótturina Freyju. Ljósmynd/Instagram

Fjórir Íslendingar verða á meðal keppenda á úrslitum heimsleikanna í crossfit sem fram fara 27. júlí til 1. ágúst í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þetta varð ljóst eftir að undanúrslitamótum lauk um helgina.

Þeirra á meðal er Annie Mist Þórisdóttir sem hefur tvívegis hlotið titilinn hraustasta kona í heimi. Hún eignaðist dótturina Freyju í ágúst í fyrra og tók því ekki þátt í leikunum þá. Í ár kemur hún tvíefld til baka en að auki með breyttan hugsunarhátt. Annie Mist opnaði sig nýverið um fæðingarþunglyndi sem hún hefur glímt við síðustu mánuði. 

„Ég vil sýna Freyju hvað það þýðir að vera sterk, ekki bara líkamlega, og ég trúi því að ég verði betri móðir ef ég hugsa um sjálfa mig og ég er að verða ég sjálf aftur,“ sagði Anníe Mist í samtali við  Morning Chalk Up fyrir mótið um helgina.  

Sjö Íslendingar freistuðu að tryggja sér keppnisrétt á heimsleikunum. Auk Anniear komust Björgvin Karl Guðmundsson, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir áfram í úrslitin. 

Katrín Tanja verður á meðal keppenda á heimsleikunum á crossfit …
Katrín Tanja verður á meðal keppenda á heimsleikunum á crossfit í sumar. Ljósmynd/Instagram

Björgvin Karl vann Lowlands Throwdown-mótið sem haldið var í Hollandi. Annie Mist keppti á sama móti og hafnaði í þriðja sæti. Þuríður Erla keppti sömuleiðis á mótinu og náði fimmta sæti, síðasta sætinu sem tryggir sæti á heimsleikunum. Katrín Tanja keppti á German Throwdown-mótinu og lenti í þriðja sæti. 

Björgvin Karl Guðmundsson verður eini íslenski karlinn sem keppir á …
Björgvin Karl Guðmundsson verður eini íslenski karlinn sem keppir á heimsleikunum í crossfit í lok júlí.

Haraldur Holgersson rétt missti af möguleika á að vinna sér sæti í úslitum leikanna en hann varð í 9. sæti á German Throwdown-mótinu þar sem 6.-8. sæti tryggðu sæti á aukamóti þar sem gefst annað tækifæri á að tryggja sætið á heimsleikunum. Þröstur Ólafsson varð í 22. sæti á sama móti en Sólveig Sigurðardóttir tók þátt í Lowlands Throwdown-mótinu þar sem hún lenti í 13. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert