Kennir neyslu svínakjöts um fjögurra ára keppnisbann

Shelby Houlihan.
Shelby Houlihan. AFP

Bandaríska hlaupakonan Shelby Houlihan segist hafa fengið fjögurra ára keppnisbann eftir að ólöglegt efni greindist í blóði hennar eftir lyfjapróf. Henni finnst líklegast að neysla á vefju með svínakjöti kvöldið fyrir prófið hafi leitt til niðurstöðunnar.

Houlihan segir að henni hafi verið tilkynnt í janúar að anabólíski sterinn nandrólón hafi greinst í blóðprufu hennar frá því skömmu fyrir jól á síðasta ári.

Að sögn Houlihan var henni tilkynnt um keppnisbannið af Alþjóðaíþróttadómstólnum síðastliðinn föstudag, þótt hvergi sé búið að tilkynna opinberlega um bannið.

Hún þvertekur þó fyrir að hafa nokkru sinni innbyrt ólögleg efni. „Ég er fullkomlega miður mín, ráðvillt, niðurbrotin, reið, ringluð og finnst ég svikin af íþróttinni sem ég hef elskað og helgað mig.

Ég vil koma einu á hreint. Ég hef aldrei innbyrt nein lyf til að bæta frammistöðu mína,“ ritaði Houlihan á samfélagsmiðlum sínum og kvaðst ekki einu sinni hafa heyrt um nandrólón, sem getur aukið vöðvamassa.

„Ég hef síðan lært að Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin gengst við því að það að borða svínakjöt getur leitt til falskrar niðurstöðu þegar kemur að nandrólóni, þar sem vissar tegundir svína framleiða sterann náttúrulega í miklu magni. Kjöt úr innvolsi svína inniheldur mesta magn nandrólóns,“ bætti hún við.

Reyndi að sýna fram á sakleysi sitt

Houlihan sagðist hafa farið yfir hvaða mat hún hefði innbyrt vikuna fyrir lyfjaprófið 15. desember síðastliðinn.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að líklegasta útskýringin væri vefja sem ég keypti í mexíkóskum matvagni, sem býður upp á kjöt úr innvolsi svína, og snæddi um 10 klukkustundum fyrir lyfjaprófið,“ sagði hún.

Houlihan segist hafa látið öll hlutaðeigandi yfirvöld vita að hún teldi þetta vera ástæðuna fyrir því að nandrólón hafi fundist í blóði hennar. Hún hafi auk þess staðist lygapróf og látið eiturefnafræðing skoða hár sitt.

„Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin gekkst við því að próf eiturefnafræðingsins hafi sannað að það væri enga uppbyggingu nandrólóns að finna í líkama mínum, sem hefði verið ef ég hefði verið að innbyrða það reglulega.“

Hvorki Alþjóðaíþróttadómstóllinn né Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin hafa staðfest keppnisbannið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert