Eriksen fær bjargráð eftir hjartastoppið

Eriksen fer af velli á börum á laugardag.
Eriksen fer af velli á börum á laugardag. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen, sem hneig niður í leik Danmerkur gegn Finnlandi á Evrópumótinu um síðastliðna helgi, mun fara í aðgerð og fá græddan í sig bjargráð í kjölfar hjartastoppsins. 

Endurlífga þurfti Eriksen á Parken í Kaupmannahöfn. 

Í tilkynningu frá danska landsliðinu segir að Morten Boesen, læknir danska liðsins, hafi verið í samskiptum við hjartasérfræðinga á Rigshospitalet þar sem Eriksen hefur fengið aðhlynningu síðan á laugardag. 

„Eftir að hafa farið í gegnum mismunandi hjartarannsóknir hefur það verið ákveðið að hann fái ICD [bjargráð]. Þetta tæki er nauðsynlegt eftir hjartastopp vegna hjartsláttartruflana,“ segir í tilkynningunni. Þá er fólk hvatt til þess að veita Eriksen og fjölskyldu hans næði. 

Bjargráður er íslenskt heiti á ICD (e. implantable cardioverter defibrillator). Bjargráðum er ætlað að meðhöndla of hraðar eða lífshættulegar hjartsláttartruflanir, en allir bjargráðar eru einnig með gangráðstækni sem grípur inn í starfsemi hjartans ef hjartsláttur verður of hægur samkvæmt Hjartalífi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert