Keflavík átti ekki möguleika

Calvin Burks Jr. hjá Keflavík í baráttu við leikmenn Þórs …
Calvin Burks Jr. hjá Keflavík í baráttu við leikmenn Þórs frá Þorlákshöfn. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur og fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í körfuknattleik, telur hraðan og kröftugan sóknarleik ásamt góðum færslum í varnarleik Þórs frá Þorlákshöfn hafa skapað sannfærandi 91:73-útisigur liðsins gegn deildarmeisturum Keflavíkur í fyrsta leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins á miðvikudag.

„Ég myndi segja að Þórsarar hafi náð að spila sinn leik, sem þeir hafa verið að gera í allan vetur. Þegar þeir hafa unnið hafa þeir verið að spila hratt og skjóta boltanum vel og mér fannst þeir gera það mjög vel í fyrrakvöld,“ sagði Logi í samtali við Morgunblaðið.

„Svo fannst mér þeir rosalega vel tilbúnir varnarlega. Þeir voru með ákveðnar áherslur í vörninni í boltahindrununum með Herði Axel [Vilhjálmssyni] þar sem Ragnar Örn Bragason var á honum.

Mér fannst þeir leysa mjög vel úr þessari „pick and roll“-sókn Keflvíkinga, þegar Hörður Axel kemur af boltahindrun frá [Dominykas] Milka. Þeir hafa verið óviðráðanlegir í allan vetur með þennan liðsleik og svo eru þeir með svo marga góða leikmenn í kringum þá tvo að Keflvíkingar eru oft með ákveðna svikamyllu,“ bætti hann við.

Leikplanið virkaði fullkomlega

Logi fór nánar út í varnarleik Þórs. „Mér fannst Þórsarar gera rosalega vel, þeir voru mjög vel undirbúnir og allar færslur í vörninni voru á réttum tíma. Þeir héldu Keflvíkingum í 10 stigum á fyrstu átta mínútunum.

Auðvitað hittu Keflvíkingar illa en Þórsarar létu skotin hjá Keflavík koma á þeim stöðum þar sem þeir vildu að Keflvíkingar skutu. Þórsarar náðu að láta mennina sem þeir kannski vildu að væru með boltann vera með hann.“ sagði hann.

Viðtalið við Loga má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert