Perisic hetja Króatíu gegn Tékklandi

Ivan Perisic og Bruno Petkovic fagna marki þess fyrrnefnda.
Ivan Perisic og Bruno Petkovic fagna marki þess fyrrnefnda. AFP

Ivan Perisic reyndist hetja Króatíu gegn Tékklandi þegar liðin mættust í D-riðli Evrópumóts karla í knattspyrnu á Hampden Park í Glasgow í Skotlandi í dag.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Perisic jafnaði metin fyrir Króata strax í upphafi síðari hálfleiks.

Patrick Schick kom Tékkum yfir á 37. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að Dejan Lovren, varnarmaður Króata, hafði gefið Shick olnbogaskot innan teigs.

Carlos Del Cerro, dómari leiksins, studdist við VAR-myndbandsdómgæsluna áður en hann benti á punktinn en Króatar voru afar ósáttir með vítaspyrnudóminn.

Perisic jafnaði metin fyrir Króatíu á 47. mínútu með laglegu einstaklingsframtaki en Andrej Kramaric sendi Perisic í gegn eftir snögga aukaspyrnu.

Perisic fór illa með Vladimir Coufal sem rann á rassinn þegar hann reyndi að verjast Króatanum og Perisic þrumaði boltanum með hægri fæti í bláhornið, utarlega í teignum.

Tékkar eru með 4 stig í efsta sæti riðilsins en Króatar eru í þriðja sætinu með 1 stig. 

England er með 3 stig í öðru sætinu og mætir Skotlandi á Wembley síðar í kvöld.

Í lokaumferðinni mætast svo Tékkland og England annars vegar í London og Króatía og Skotland í Glasgow.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert