Síle á toppinn í A-riðli

Ben Brereton fagnar marki sínu ásamt Eduardo Vargas.
Ben Brereton fagnar marki sínu ásamt Eduardo Vargas. AFP

Ben Brereton skoraði sigurmark Síle þegar liðið vann sigur gegn Bólivíu í A-riðli Ameríkubikarsins, Copa America, í Cuiabá í Brasilíu í kvöld.

Brereton, sem er 22 ára og leikur með Blackburn Rovers í ensku B-deildinni, skipti nýlega um ríkisfang eftir að hafa spilað með yngri landsliðum Englands og var aðeins að spila sinn annan landsleik fyrir Síle.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Síle en mark Brereton, kom eftir tíu mínútna leik og reyndist það eina mark leiksins og hans fyrsta fyrir landsliðið.

Síle er í efsta sæti riðilsins með 4 stig eftir tvo leiki en Paragvæ er í öðru sætinu með 3 stig eftir einn leik. 

Argentína kemur þar á eftir með 1 stig eftir einn leik og Úrúgvæ er án stiga í fjórða sætinu en liðið á enn þá eftir að spila sinn fyrsta leik á mótinu.

Bólivía rekur lestina í neðsta sæti riðilsins með 0 stig eftir fyrstu tvo leiki sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert