Kostar 50.000 krónur á viku

„Skotíþróttasambandið hefur borgað bæði flugið og gistinguna fyrir mann þegar þeir senda mann á mót,“ Sigurður Unnar Hauksson, margfaldur Íslandsmeistari í skotfimi og landsliðsmaður í greininni, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sigurður Unnar hefur æft skotfimi með haglabyssu frá því hann var fimmtán ára gamall og er ríkjandi Íslandsmethafi í unglingaflokki, fullorðinsflokki og liðakeppni.

Undanfarin ár hefur hann keppt mikið á erlendri grundu fyrir Íslands hönd og því fylgir mikill kostnaður.

„Þessu fylgir mikill kostnaður eins og keppnisgjöld, æfingahringir og auðvitað matur og uppihald líka,“ sagði Sigurður Unnar.

„Ég held að fæstir geri sér grein fyrir kostnaðinum sem fylgir því að æfa skotfimi því þetta er mjög dýrt sport að stunda.

„Hver æfing kostar kannski í kringum 10.000 krónur sem gerir 50.000 krónur á viku, ef þú æfir fimm sinnum í viku eins og maður hefur verið að gera,“ sagði Sigurður Unnar.

Viðtalið við Sigurð Unnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is