Annar Íslendingur fær keppnisrétt á Ólympíuleikunum

Ásgeir Sigurgeirsson.
Ásgeir Sigurgeirsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Sigurgeirsson skotíþróttamaður verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í Tókýó. Keppir Ásgeir þá að óbreyttu á Ólympíuleikum í annað sinn á ferlinum. 

Ísland fær kvótapláss í keppni með loftskammbyssu frá Alþjóðaskotíþróttasambandinu en staða Ásgeirs á heimslista hefur oft verið nokkuð góð á síðustu árum. 

Fram að þessu var sundmaðurinn Anton Sveinn McKee eini íslenski íþróttamaðurinn með kepnisrétt á leikunum í Tókýó. Ekki hefur verið heiglum hent fyrir íþróttafólk að komast í alþjóðlega keppni og vinna sig inn á leikana vegna heimsfaraldursins. 

Ásgeir Sigurgeirsson á Ólympíuleikunum í London árið 2012.
Ásgeir Sigurgeirsson á Ólympíuleikunum í London árið 2012. mbl.is/Golli

Ásgeir náði mjög góðum árangri á Ólympíuleikunum í London árið 2012 þegar hann hafnaði í 14. sæti í keppni með loftskammbyssu af 10 metra færi og var ekki langt frá því að komast í úrslit í greininni. 

Þá var Ásgeir ekki ýkja reyndur keppnismaður en hefur síðan þá keppt á mörgum stórmótum auk þess að keppa í mörg ár í efstu deild í Þýskalandi.  

Í tilkynningu frá Íþrótta-og ólympíusambandinu kemur fram að Ásgeir muni keppa strax á fyrsta keppnisdegi leikanna 24. júlí. Úrslitin í greininni eru á dagskrá samdægurs. 

Enn sem komið er hefur íslensku íþróttafólki ekki tekist að ná lágmörkum fyrir keppni í frjálsum íþróttum á leikunum í Tókýó. Takist það ekki mun Ísland fá einu sæti úthlutað í frjálsíþróttakeppninni. Íslendingar munu því alla vega eiga þrjá keppendur á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir tíðindi dagsins. 

Takist Íslendingi að ná lágmarki í frjálsum, Guðni Valur Guðnason er til að mynda mjög nærri því í kringlukasti, myndi viðkomandi ná öðrum Íslendingi inn í frjálsíþróttakeppni leikanna. Ef við gefum okkur að Guðni nái lágmarki myndi íslensk frjálsíþróttakona einnig komast á leikana.

mbl.is