Andrea og Arnar unnu í Miðnæturhlaupinu

Andrea Kolbeinsdóttir kemur í mark fyrst kvenna í Miðnæturhlaupinu.
Andrea Kolbeinsdóttir kemur í mark fyrst kvenna í Miðnæturhlaupinu.

Andrea Kolbeinsdóttir og Arnar Pétursson sigruðu í kvenna- og karlaflokkum í Miðnæturhlaupi Suzuki sem fram fór í góðu veðri í Laugardalnum í kvöld en það var haldið í 28. skipti.

Keppt var í 10 km hlaupi og hálfmaraþoni í ár og aðstæður til bætinga voru góðar.

Vegna Covid-áhrifanna þurfti að gera nokkrar breytingar á hlaupinu í ár. Fimm kílómetra hlaupið fór ekki fram og ræst var í nokkrum 300 manna ráshólfum, en mikil aukavinna var lögð í skipulagið í ár.

Arnar Pétursson kemur í mark fyrstur karla í Miðnæturhlaupinu.
Arnar Pétursson kemur í mark fyrstur karla í Miðnæturhlaupinu.

Andrea sigraði í kvennaflokki á tímanum 1:20:39, sem er besti tíminn sem hefur verið hlaupinn í hálfu maraþoni í Miðnæturhlaupinu. Fimm mínútum seinna kom Verena Schnurbus í mark og þriðja var Íris Dóra Snorradóttir.

Arnar Pétursson sigraði í 21 km hlaupinu í karlaflokki á tímanum 1:10:35. Hörð keppni var um annað sætið þar sem Kristján Svanur Eymundsson hafði betur gegn Snorra Björnssyni.

10 km hlaupið vann Julian Meyer á 32:22 sem er besti tíminn í 10 km í sögu hlaupsins. Annar var Þórólfur Ingi Þórsson og Gísli Helgason varð þriðji.

Hulda Fanný Pálsdóttir sigraði í 10 km hlaupi kvenna á tímanum 42:12, önnur var Gerður Guðlaugsdóttir og þriðja Ewa Przybyla.

„Það er búin að vera mikil tilhlökkun hjá okkur að byrja viðburðasumarið okkar með Miðnæturhlaupi Suzuki. Við vorum jafn þyrst og hlaupararnir að hittast þetta Jónsmessukvöld og hlaupa saman. Hlaupið hefur verið vinsælt meðal erlendra hlaupara síðustu ár og við söknuðum þeirra í ár, en hlökkum til að taka á móti þeim á næsta ári,“ segir Silja Úlfarsdóttir, almannatengill ÍBR.

Þess má geta að síðasta árið hefur Íþróttabandalag Reykjavíkur þurft að aflýsa þrem viðburðum; Miðnæturhlaupi Suzuki 2020, Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2020 og Norðurljósahlaupinu 2021.

mbl.is