Frakklandshjólreiðarnar hófust með stórslysi

Ansi margir féllu í furðulegu stórslysi í dag.
Ansi margir féllu í furðulegu stórslysi í dag. AFP

Frakk­lands­hjól­reiðarn­ar, Tour de France, hófust með ósköpum en fjöldi keppenda lenti í alvarlegu furðulegu slysi strax á fyrsta keppnisdegi.

Keppnin hófst í bænum Brest í Frakklandi og þurfti keppendur að hjóla um 200 kílómetra í keppninni sögufrægu í dag. Þegar um 44 kílómetrar voru í mark varð furðulegt slys. Áhorfendur stóðu þétt við keppnisbrautina og kona hélt uppi stóru skilti með skilaboðum til fjölskyldunnar sem horfði væntanlega á í sjónvarpinu.

Ekki vildi hins vegar betur til en svo, að skiltið teygði sig inn á keppnisbrautina sjálfa og einn hjólreiðamaðurinn lenti á því, féll við og úr varð stórslys. Algjör glundroði varð á brautinni og ekki nema rúmlega tíu keppendur sluppu í gegn. Frakkinn Julian Alaphilippe var svo að lokum fyrstur í mark.

mbl.is