Dregur sig úr keppni – má ekki hafa aðstoðarkonu sína

Becca Meyers tekur ekki þátt á Ólympíumóti fatlaðra í næsta …
Becca Meyers tekur ekki þátt á Ólympíumóti fatlaðra í næsta mánuði. AFP

Sundkonan daufblinda Becca Meyers hefur dregið sig úr keppni á Ólympíumóti fatlaðra sem hefst í næsta mánuði. Ástæðan er sú að hún má ekki hafa aðstoðarkonu sína sér til halds og trausts á mótinu.

Móðir hinnar bandarísku Meyers er NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) aðstoðarkona hennar og fylgir henni á þau mót sem hún tekur þátt á og hefur gert frá árinu 2017.

Samkvæmt ströngum reglum mótsins í tengslum við kórónuveirufaraldurinn verður hins vegar aðeins einn NPA-aðstoðarmaður leyfður á leikunum fyrir allt sundlið Bandaríkjanna, og það sama á við um öll önnur lið.

Meyers segir slíka persónulega aðstoð bráðnauðsynlega fyrir sig en að þar sem hún hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum í viðleitni sinni til að færa rök fyrir þessari þörf sinni hafi hún neyðst til að draga sig úr keppni.

Meyers segist í molum yfir því að þurfa að taka þessa „ömurlegu“ ákvörðun.

„Ég er reið, ég er vonsvikin en fyrst og fremst er ég döpur yfir því að vera ekki að fara að keppa fyrir hönd þjóðar minnar.

Bandaríska ólympíunefndin og bandaríska nefndin fyrir Ólympíumót fatlaðra hafa endurtekið hafnað sanngjörnum og nauðsynlegum kröfum mínum um aðstoð sem myndi gera mér kleift að taka þátt á mótinu í Tókýó,“ skrifaði hún á Twitter-aðgangi sínum.

Vegna kórónuveirunnar eru réttilega nýjar reglur hvað öryggi og takmörkun starfsfólks varðar í gildi, en áreiðanlegur NPA-aðstoðarmaður er bráðnauðsynlegur fyrir mig til þess að geta keppt.

Af hverju er ég sem fötluð manneskja enn að berjast fyrir réttindum mínum árið 2021? Ég er að láta í mér heyra fyrir komandi kynslóðir fatlaðs íþróttafólks í þeirri von að það þurfi aldrei að upplifa þann sársauka sem ég hef þurft að gera. Nú er nóg komið,“ bætti Meyers við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert