Átta tilkynningar um kynferðislegt áreiti eða ofbeldi

Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Ljósmynd/FSÍ

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, greindi frá því á Fimleikaþingi sem fram fór síðustu helgi að hún hefði fengið 24 mál til skoðunar á síðasta ári.

Þar af hefðu átta mál lotið að tilkynningum um kynferðislegt áreiti eða kynferðislegt ofbeldi. Í 11 af málunum hafi börn átt í hlut. Þá hafi 18 af málunum átt uppruna sinn á höfuðborgarsvæðinu og sex á landsbyggðinni.

Þetta kemur fram í grein sem birtist á heimasíðu Fimleikasambands Íslands í dag.

Þar er einnig greint frá því að Sigurbjörg hafi á Fimleikaþinginu sagt frá því að búið væri að stofna vinnuhóp allra í íþrótta- og æskulýðshreyfingunni sem ætti að útbúa viðbragðsáætlanir sem íþróttafélög og samtök í íþrótta- og æskulýðsstarfi geta nýtt sér.

Mikilvægt væri að huga ekki einungis að öruggu umhverfi íþrótta- og æskulýðsstarfs, heldur einnig að góðri framkomu og fyrirmyndum utan vallar. Ábyrgð foreldra þar væri rík, en íþróttafélögin og skólarnir gegndu einnig mikilvægu hlutverki. Í því sambandi ætti að horfa til þeirra gilda sem íþróttafélögin standa fyrir og leita leiða til að láta gildin endurspeglast í starfi félaganna og framkomu iðkenda og starfsmanna.

mbl.is