Tennys þrumaði tennisbolta í línudómara

Tennys Sandgren var dæmdur úr leik í gærkvöldi.
Tennys Sandgren var dæmdur úr leik í gærkvöldi. AFP

Tennisleikarinn Tennys Sandgren, sem ber sannarlega nafn með rentu, var dæmdur úr leik á móti í ATP áskorendamótaröðinni í Norður Karólínu í Bandaríkjunum í gær eftir að hafa óvart þrumað boltanum í línudómara.

Bandaríkjamaðurinn Sandgren var að keppa á móti landa sínum Christopher Eubanks þegar boltastrákur fleygði til hans bolta sem endaði á viðkvæmum stað.

Boltastrákurinn bað hann umsvifalaust afsökunar en Sandgren var eitthvað pirraður og þrumaði boltanum í burtu.

Svo óheppilega vildi til að boltinn fór af hliði og þaðan í afturenda línudómara og var hann því umsvifalaust dæmdur úr leik.

Sandgren sá spaugilegu hliðina á þessu öllu saman og útskýrði hvað hafði gerst á twitteraðgangi sínum í gærkvöldi:

„Í kvöld hæfði kast boltakrakka mig í hneturnar með aðeins of miklu sinnepi, ég dúndraði boltanum til hliðar í hliðið, sem endaði í bossanum á dómara þegar hann var að labba í hina áttina, sem leiddi til þess að ég var dæmdur úr leik.

Hvernig er ykkar kvöld að ganga? Bara til að taka af allan vafa var þetta allt saman mín sök.“

mbl.is