Biles: „Hvers virði er lítil stúlka?“

McKayla Maroney (í miðjunni) og Simone Biles (t.h.) ganga hönd …
McKayla Maroney (í miðjunni) og Simone Biles (t.h.) ganga hönd í hönd úr þinghúsi Bandaríkjaþings eftir að hafa borið vitni fyrir öldungadeildinni í gær. AFP

Fimleikastjarnan Simone Biles bar í gær vitni fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings í tengslum við áratuga langt níð fyrrverandi læknis bandaríska fimleikalandsliðsins, Larry Nassar, í garð landsliðsstúlkna og -kvenna, en Biles var eitt fórnarlamba hans.

Nassar var sakaður um að hafa brotið gegn allt að 330 stúlkum og konum og var úrskurðaður í lífstíðarfangelsi af þremur mismunandi dómstólum, þó dómarnir hafi aðeins náð til alls tíu kvenna, þar af sjö barna undir lögaldri.

Biles bar ásamt nokkrum fyrrverandi liðsfélögum vitni fyrir nefnd öldungadeildarinnar þar sem annmarkar á rannsókn Alríkislögreglunnar, FBI, á málum Nassar eru skoðaðir.

„Ég kenni Larry Nassar um og ég kenni líka heilu kerfi sem gerði honum kleift og ýtti undir níð hans um. Ef þú leyfir níðingi að skaða börn koma afleiðingarnar snögglega og alvarlega í ljós,“ sagði Biles.

Biles ber vitni í gær.
Biles ber vitni í gær. AFP

Hún kallaði eftir því að alríkislögreglufulltrúarnir sem leyfðu níði Nassar að viðgangast og hlustuðu með daufum eyrum á vitnisburði fjölda fimleikakvenna yrðu sóttir til saka fyrir sinn þátt í að rannsóknin dróst á langinn, sem gerði Nassar kleift að halda áfram að brjóta af sér.

„Hvers virði er lítil stúlka?“ spurði Biles.

Hver er tilgangurinn ef þeir henda skýrslunni ofan í skúffu?

McKayla Maroney, sem vann gull á Ólympíuleikunum árið 2012, bar einnig vitni fyrir öldungadeildinni og lýsti reynslunni af því að vera yfirheyrð af FBI sem yfirfullri af þögn og að yfirheysrlann hafir einkennst af tillitsleysi í garð áfalls hennar.

„Þeir kusu að búa eitthvað til og ljúga til um hvað ég hafði sagt og vernda í leiðinni rað barnaníðing. Hver er tilgangurinn með því að tilkynna níð ef okkar eigin alríkislögreglufulltrúar ætla að henda þessari skýrslu ofan í skúffu og grafa hana þar?“ sagði Maroney.

Aly Raisman, Simone Biles, McKayla Maroney og Maggie Nichols báru …
Aly Raisman, Simone Biles, McKayla Maroney og Maggie Nichols báru allar vitni fyrir öldungadeildinni í gær. AFP

Aly Raisman, sem var fyrirliði fimleikaliðs Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum árin 2012 og 2016 bar sömuleiðis vitni og sagði að sér þætti það viðbjóðslegt að hún þyrfti enn að berjast fyrir grundvallar svörum og öxlun ábyrgðar, meira en sex árum eftir að hún tilkynnti fyrst um níð í sinn garð.

„Það hefur komið í ljós á afar sáran hátt að bati þeirra sem lifa af níð stýrist að stóru leyti af því hvernig níðið í þeirra garð er meðhöndlað,“ sagði Raisman.

Hún gagnrýndi FBI rannsóknina á Nassar og sagði engu líkara en að hún hafi einkennst af ágiskunum. Raisman varaði þá við því að ef fjöldi alvarlega ágalla rannsóknar FBI yrðu ekki teknir föstum tökum myndi það leið til endurtekinnar martraðar fyrir fjölda kvenna til viðbótar.

Larry Nassar mun sitja í fangelsi til dauðadags.
Larry Nassar mun sitja í fangelsi til dauðadags. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert