Enn tefst útgáfa leiðarvísis fyrir transfólk í íþróttum

Alþjóðaólympíunefndinni hefur reynst erfitt að gefa út leiðarvísinn.
Alþjóðaólympíunefndinni hefur reynst erfitt að gefa út leiðarvísinn. AFP

Alþjóðaólympíunefndin hefur enn á ný neyðst til að fresta útgáfu nýs leiðarvísis fyrir transfólk í íþróttum sökum afar ósamrýmanlegra sjónarmiða innan nefndarinnar. Ekki er talið líklegt að leiðarvísirinn verði birtur fyrr en í fyrsta lagi eftir Vetrarólympíuleikana í Peking í Kína.

Vetrarólympíuleikarnir eiga að hefjast í febrúar á næsta ári og ef svo færi að leiðarvísirinn yrði ekki birtur fyrr en þá verða liðin þrjú ár frá því að hann átti upphaflega að vera gefinn út.

Nefndin leggur til að transkonur fái leyfi til þess að keppa í kvennaflokki ef þær lækka testosterón-magn sitt yfir 12 mánaða skeið. Einnig er lagt til að ekki sé þörf á að transkonur gangist undir kynleiðréttingaraðgerð, eins og fyrri drög að leiðarvísinum kváðu á um, svo lengi sem testosterón-magn sé undir leyfilegum mörkum.

Þrátt fyrir þessar tillögur og fleiri bendir nefndin á að íþróttasambönd þjóða megi sjálf taka ákvarðanir og setja sínar eigin reglur í þessum efnum.

„Alþjóðlegu samböndin munu sjálf ákvarða reglur í tengslum við íþróttir sínar og viðburði í tengslum við þá,“ sagði Richard Budgett, sem er yfirmaður vísinda og læknavísinda innan Alþjóðaólympíunefndarinnar, er hann ávarpaði Evrópuráðið á fundi um verndun mannréttinda intersex og transfólks í íþróttum.

Hann sagði að í leiðarvísinum yrði lagt upp með að forðast skaða og leggja áherslu að öllu íþróttafólki myndi líða á þann hátt að það tilheyrði, en að á sama tíma yrði passað upp á mikilvægi sanngirni og þýðingu keppna.

„Við eigum ennþá eftir að samþykkja rammann utan um leiðarvísinn. Það er erfitt en hann verður gefinn út innan nokkurra mánaða, í síðasta lagi skömmu eftir Vetrarólympíuleikana í Peking.“

Lausnirnar litist ekki af kynjatvíhyggju

„Við áttum okkur auðvitað á því að kynin eru ekki bara tvö. Þetta er samfella sem getur skarast. Því munu lausnirnar í meginatriðum ekki litast af kynjatvíhyggju,“ bætti Budgett við.

Í umfjöllun The Guardian um málið er greint frá því að nýlegar rannsóknir komist að þeim niðurstöðum að allir þeir sem fara í gegnum kynþroskaskeið sem karlmenn viðhalda stórum hluta krafts og styrks síns jafnvel þó þeir taki inn lyf til þess að minnka testorón-magn sitt.

Af þeim sökum telur Budgett að nauðsynlegt sé að aðskilja kyn og kyngervi (e. gender) þannig að ekki sé tekið tillit til kyngervis.

„Transkonur eru konur. En við þurfum líka að ganga úr skugga um að kyngervi sé ekki inni í myndinni þegar kemur að því hverjir geta tekið þátt í tilteknum íþróttum. Það þarf að skoða þetta út frá hverri íþrótt fyrir sig.“

Hann sagði það enda einna erfiðast að ákvarða hvað gætu talist ósanngjarnir yfirburðir viss íþróttafólks því það gæti verið mikill munur þar á eftir því um hvaða íþróttir er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert