Tveir sigrar Aftureldingar og öruggt hjá HK

Lið Aftureldingar er þegar komið með sex stig eftir tvo …
Lið Aftureldingar er þegar komið með sex stig eftir tvo leiki.

Lið Aftureldingar hóf Íslandsmót karla í blaki á tveimur sigrum um helgina þegar liðið tók á móti Vestra að Varmá í Mosfellsbæ á laugardag og sunnudag.

Afturelding vann fyrri leikinn á laugardaginn 3:1 þar sem Sigþór Helgason var stigahæstur  hjá Aftureldingu með 22 stig og Hafsteinn Sigurðsson í liði Vestra með 17 stig.

Seinni leikurinn á sunnudag endaði einnig 3:1 fyrir Aftureldingu. Stigahæstir hjá Aftureldingu var Sigþór Helgason með 14 stig og Þórarinn Jónsson með 12 stig. Stigahæstir í liði Vestra voru Hafsteinn Sigurðsson með 20 stig og Carlos Rangel með 19 stig. 

Fylkir  tók á móti HK í Fylkishöllinni í gær og þar vann HK 3:0. Fylkir teflir fram nokkuð breyttu liði frá síðustu leiktíð og hefur ráðið nýjan þjálfara, Sladjönu Smiljanic. HK hefur fengið mikinn liðstyrk frá síðasta ári, landsliðsmanninn Bjarka Benediktsson og Hristiyan Dimitrov. 

HK var mun sterkari aðilinn og vann sannfærandi sigur, 3:0. (25:13, 25:18 og 25:17). Heimamenn í Fylki náðu að stríða HK liðinu framan af í annarri lotu með öflugum uppgjöfum og góðri hávörn en HK sneri lotunni sér í vil með fjölbreyttum sóknarleik.

Stigahæstir Fylkismanna  voru Alexander Stefánsson með 9 stig, Ragnar Már  8 stig og Atli Fannar Pétursson með 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert