Besti árangur íslenskrar konu á HM

Ágústa Edda Björnsdóttir til vinstri og Bríet Kristý Gunnarsdóttir til …
Ágústa Edda Björnsdóttir til vinstri og Bríet Kristý Gunnarsdóttir til hægri. Ljósmynd/Hjólreiðasamband Íslands

Ágústa Edda Björnsdóttir hafnaði í 37. sæti í tímatöku á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum í Flanders í Belgíu í gær.

Ágústa kom í mark á tímanum 40:59 mínútum en meðalhraði hennar í brautinni var 44,36 km/klst. 

Þetta er í þriðja sinn sem Ágústa Edda keppir á HM en hún tók þátt á heimsmeistaramótinu 2019 í Harrogate á Bretlandi, fyrst íslenskra kvenna, þar sem hún hafnaði í 49. sæti í tímatöku. 

Árið 2020 hafnaði hún svo í 42. sæti í tímatöku á HM í Imola á Ítalíu og þetta er því hennar besti árangur og jafnframt besti árangur Íslendings í greininni á heimsmeistaramóti.

Þá var Bríet Kristý Gunnarsdóttir að taka þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti en hún hafnaði í 44. sæti í greininni á tímanum 43:12 mínútur.

Næstu helgi keppir íslenski landsliðshópurinn svo í götuhjólakeppninni þar sem hjóluð verður 160 kílómetra braut í Flanders-héraðinu í Belgíu.

Kristinn Jónsson keppir í flokki U23-ára og þær Ágústa Edda, Bríet Kristý og Elín Björg Björnsdóttir keppa í Elite-flokki kvenna.

mbl.is