Fyrsti Íslendingurinn til að ná EM lágmarki

Aldís Kara Bergsdóttir er að gera góða hluti.
Aldís Kara Bergsdóttir er að gera góða hluti. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Aldís Kara Bergsdóttir lauk keppni í dag á Nebelhorn Trophy sem fram fer í Oberstdorf í Þýskalandi. Hún gerði sér lítið fyrir og varð fyrsti Íslendingurinn til að ná lágmarki fyrir EM í frjálsum æfingum.

Mótið á sér langa sögu og dregur árlega að sér marga þá fremstu í íþróttinni ásamt því að dómarar og tæknisérfræðingar/-stjórnendur mæta þangað til þess að endurnýja réttindi sín hjá Alþjóða skautasambandinu. Þá er mótið það síðasta þar sem hægt er að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum 2022.

Í kvennaflokki hófu 37 skautarar keppni á fimmtudaginn var. Byrjað er með stutt prógram, þar sem sýndar eru skylduæfingar.

Aldís Kara fór sterk af stað og sýndi góðar og öruggar æfingar. Sem skilaði sér í 21.98 tæknistigum og heildarstigum upp á 39.92 og 31. sætið. Þrátt fyrir að tvö stökk hafi ekki verið full snúin hjá henni var hún samt sem áður ekki nema um einu stigi frá lágmörkum sem þarf í stuttu prógrammi til keppni á Evrópumeistaramótinu. 

Á laugardag hélt keppni áfram í kvennaflokki með frjálst prógram. Keppt er í öfugri úrslitaröð frá fyrri keppnisdegi og var Aldís Kara sjöundi skautarinn inn á ísinn.

Aldís negldi hvert stökkið á fætur öðru og fékk há erfiðleikastig á snúninga og sporasamsettningu. Að launum fékk hún 41.50 tæknistig og heildarstig í frjálsu prógrammi 78.17 og 32. sætið. Samanlögð heildarstig mótsins hjá henni voru 118.09 og 32. sætið.

Með 41.50 tæknistig í frjálsu prógrammi náði Aldís Kara lágmörkum sem þarf fyrir Evrópumeistaramót. Til þess að öðlast keppnisrétt á Evrópumeistaramóti þarf að ná lágmörkum í bæði stuttu prógrammi (23.00 stig) og frjálsu prógrammi (40.00 stig) á alþjóðlegu móti á lista ISU. Ekki þarf að ná lágmörkum fyrir bæði prógröm á sama móti og á því Aldís Kara bara eftir að ná stigunum í stuttu prógrammi.

Næsta mót hjá henni er Finlandia Trophy sem fer fram í Espoo í Finnlandi 7.-11. október nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert