Eygló vann sig inn á HM

Eygló Fanndal Sturludóttir.
Eygló Fanndal Sturludóttir. Ljósmynd/Lyftingasambandið

Eygló Fanndal Sturludóttir setti þrjú Íslandsmet og vann sig inn á heimsmeistaramótið í ólympískum lyftingum með árangri sínum á EM 20 ára og yngri í Finnlandi.

Eygló setti Íslandsmet í snörun, jafnhendingu og í samanlögðu. Í fréttatilkynningu frá Lyftingasambandinu kemur fram að Eygló hafi náð B-lágmarki inn á HM sem haldið verður í Úsbekistan í desember.

Eygló snaraði 89 kílóum og náði 108 kg í jafnhendingu. Þar af leiðandi lyfti hún 197 kg samanlagt á mótinu en eins og áður segir er um Íslandsmet að ræða í öllum tilfellum. Hafnaði Eygló í 6. sæti á EM 20 ára og yngri.

mbl.is